Þegar ég kom heim úr sumarfríinu beið mín bréf, reyndar tvö bréf, skrifuð með stuttu millibili. Við annað bréfanna var búið að hefta lítinn gjafapoka. Svona gleðibréf eru sjaldgæf en mikið sem þau gleðja alltaf. Og það að það skuli vera til fólk sem gefur sér tíma til að setjast niður og skrifa jákvæð og falleg bréf til annarra bara til að gleðja þá er ótrúlega fallegt.
En að bréfunum.
Hér er fyrra bréfið.
Hér er á ferðinni reynslusaga konu af hormónajóga sem taldi sig ekki vera komna á breytingaskeiðið þegar hún fyrst heyrði af hormónajóga vegna þess að hún var ennþá með blæðingar. Hún afgreiddi þetta því snarlega á þann veg að þetta væri ekkert fyrir hana.
Svefnleysi og minnisleysi skrifaði hún á eitthvað allt annað.
Hún hafði alltaf stundað mikla hreyfingu eins og hlaup og sund og verið meðvituð um mataræðið og passað sig að drekka vatn. Vegna verkja hér og þar þurfti hún að draga úr hlaupunum. Um svipað leyti byrjaði hún að finna fyrir þurrki í leggöngum og blæðingarnar hættu stuttu síðar. Rúmri viku síðar byrjuðu hitakófin.
Hún fór og keypti sér bókina um hormónajóga í byrjun júlí. Las hana á einni helgi og byrjaði að gera æfingarnar á mánudegi. Þetta gekk frekar brösulega fyrst og henni fannst hún svitna á meðan hún gerði æfingarnar. Svo birtust reynslusögur Önnu og Sigurborgar, sem báðar hafa náð frábærum árangri með reglulegri ástundun hormónajóga og eru báðar jógakennarar, á netinu og þá féllust henni hendur og hún var sannfærð um að þetta tækist aldrei hjá henni. Hún væri nú ekki mikill jógi sjálf. En hún lét ekki deigan síga og hefur gert æfingarnar samviskusamlega alla morgna síðan.
Strax nokkrum vikum eftir daglegar æfingar var leggangaþurrkurinn horfinn. Hitakófin líka. Liðleikinn hafði aukist til muna og líkamsstaðan batnað. Hún sagðist alltaf hafa verið mjög fött, það fött að farið var að bera á því að hún væri hokin, og átt erfitt með að liggja á bakinu á gólfinu. Allt þetta lagaðist á ekki lengri tíma en þetta. Verst með eyrnasuðið. Ætli hormónajóga geti lagað það?
Síðara bréfið.
Bréfið byrjar hún á því að hrósa mér. Það er mikil gjöf að geta hrósað öðrum. Takk. Hún vindur sér síðan í æfingarnar og segist vera búin að læra þær utanaf og hafi loksins sest niður með töfluna sem er í bókinni þar sem hægt er að meta styrkleika einkennanna og bera saman við þegar hún byrjaði að gera æfingarnar. Vægt þunglyndi og áhugaleysi var farið að gera vart við sig áður en hún byrjaði að gera æfingarnar sem hún vildi ekki viðurkenna þá. Höfuðverkur, en hún hafði aldrei fengið höfuðverk, var farinn að hrjá hana. Þetta allt er horfið. Svefninn er miklu betri, liðverkirnir hafa batnað og pirringurinn, sem var einnig farinn að gera vart við sig, var horfinn. Hitakóf og þurrkur í leggöngum heyra sögunni til og minnið hefur stórbatnað. Auk þess sem hún finnur nú fyrir mun minni fótkulda á kvöldin og segist vera orkumeiri.
Deginum áður en hún skrifaði bréfið sagðist hún hafa fundið hversu glöð og hress hún var. Það vill hún þakka hormónajóga. Hún orðar það svo fallega þegar hún segir að það sé mikið frelsi að geta verið eins og maður á að sér að vera. Að þurfa ekki að búast við einhverjum einkennum eins og hitakófi óforvarendis með tilheyrandi roða og svita og að vakna upp í svitabaði á nóttunni. Það sé góð tilhugsun að hafa verkfæri eins og hormónajóga í verkfærakistunni.
Namste og kærar þakkir fyrir bréfin fallegi bréfritari.
Comments